Hoppa yfir valmynd
17. maí 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Öllum tryggð örugg fjarskipti

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, í samstarfi við Fjarskiptastofu, hyggst ráðast í átak til að bæta fjarskiptasamband á um 100 stöðum á landinu. Útbreiðsla farnets síðustu árin hefur verið að mælast um og yfir 99,9% í byggð en samkvæmt frumathugun Fjarskiptastofu eru um 100 lögheimili eða vinnustaðir sem ekki eiga kost á farneti yfir höfuð eða þá að fyrirliggjandi farnet uppfyllir ekki lágmarksskilyrði alþjónustu.

Þessir staðir eru víða um land; ekki síst á Vestfjörðum, Suðurlandi og Norðurlandi. Fimmtíu milljónir verða settar í átakið í ár og standa vonir til að búið verði að bæta fjarskiptasambandið á öllum stöðunum 100 innan fárra ára.

Aðdragandi málsins er sá að árið 2022 lauk landsátaki um ljósleiðaravæðingu utan þéttbýlis, sem kallað var Ísland ljóstengt. Þátttaka sveitarfélaga var valkvæð þar sem hvorki ríkinu né sveitarfélögum ber skylda til að útvega ljósleiðaratengingar. Þegar upp var staðið hafði fjarskiptasjóður komið til móts við allar stuðningsóskir sveitarfélaga en þrátt fyrir það náði uppbygging ljósleiðaraneta í dreifbýli ekki til allra lögheimila.

Endurnýjun fjarskiptafyrirtækja á fjarskiptanetum hefur það í för með sér að grípa þarf til sértækra aðgerða ef tryggja á áfram lágmarks fjarskiptaþjónusta á einstaka lögheimilum og vinnustöðum með heilsársbúsetu eða starfsemi. Dæmi um þetta er boðuð uppbygging og notkun ljósleiðara í stað koparkerfisins og 4G/5G í stað GSM/3G. Samkvæmt frumathugun Fjarskiptastofu eru um 100 lögheimili víðsvegar um landið sem fá ekki notið fullnægjandi netþjónustu um ljósleiðara eða 4G/5G.

Því verður ráðist í átaksverkefni undir forystu Neyðarlínunnar ohf. til að bæta gæði fjarskiptasambands á slíkum stöðum eins og fyrr segir. Frekari upplýsingar og samráðsskjal um áformin má nálgast á vef Fjarskiptastofu. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðherra, segir að til standi að ná ofangreindu markmiði innan fárra ára, sem yrði einstakur árangur á heimsvísu.

„Staðan í fjarskiptamálum á Íslandi er mjög góð en stjórnvöld stefna að því að hún verði enn betri og er markmið stjórnvalda að allir landsmenn eigi kost á nothæfu netsambandi sem er ein af grundvallarforsendum búsetugæða, menntunar og atvinnuþátttöku í nútímasamfélagi. Með þessu átaksverkefni vonumst við til að hraða svo um munar þessu mikilvæga verkefni, svo að allir landsmenn geti búið við samskiptaöryggi, sama hvar þeir búa,“ segir Áslaug Arna. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hafi þegar tryggt fjármögnun átaksverkefnisins í fyrirliggjandi fjármálaáætlun.

„Ísland er meðal leiðandi landa í útbreiðslu á ljósleiðara, Ísland er með einstaka stöðu í aðgengi ljósleiðara í dreifbýli og útbreiðsla á 4G og 5G er á pari við það sem best gerist í heiminum. Þetta hefur gerst bæði i krafti mikillar samkeppni og rétt stilltri aðkomu stjórnvalda,“ segir Áslaug Arna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum